Tuesday, August 28, 2012

Ferskjumauk - bragðmikið og gott

Í garðinum hjá okkur hér í Noregi er ferskjutré. Einhvern veginn virðist það vera þannig að allar ferskjurnar eru tilbúnar á sama tíma.  Það var því farið út að tína af trénu.  Við fylltum stóran pott af ferskjum.  Þær eru alveg rosalega sætar og bragðgóðar, en því miður þá geymast þær ekki nema nokkra daga í ísskápnum.  Það voru því góð ráð dýr að reyna að gera eitthvað sniðugt úr ferskjunum áður en þær skemmast.
Ég ákvað að reyna að gera einhvers konar chutney úr ferskjunum, eitthvað líkt og mango chutney.  Ég elska mango chutney, en því miður er yfirleitt svo mikill sykur í því, þannig að ég nota það sjaldan nú orðið.  Ég las innihaldslýsingu á mango chutney krukku í búðinni um daginn og reyndi að líkja eitthvað eftir því.  Ég var bara nokkuð sátt með útkomuna.  Ferskjuchutney með krydduðum undirtón sem er gott sem meðlæti með ýmsu kjöti eða fisk.  Það er örugglega líka gott að skipta ferskjunum út fyrir mangó eða jafnvel epli.  Ég skrifaði uppskriftina ekki nákvæmlega hjá mér, þannig að ég er aðallega að reyna að setja hana hér inn eftir minni.  En það er líka um að gera að smakka maukið til og bæta út í kryddum eftir eigin smekk.  



10 ferskjur afhýddar, steinhreinsaðar og skornar í bita.
1 stór laukur smátt skorinn
3 hvítlauksrif
1-2 cm af rifnum engifer
1/2 - 1 tsk kardimommur
1/2 - 1 tsk negull
1/2 tsk karrý
1/4 tsk cayanne pipar
1/2 dl eplaedik
2-3 tsk agave sýróp
smá salt

Öllu er skellt í pott og hrært vel í þar til suðan kemur upp.  Ég leyfði þessu að malla í um 40 mínútur á vægum hita og hrærði í annars lagið.  Svo er bara að skella maukinu í vel sótthreinsaðar krukkur og geyma í ísskáp.

Ferskjurnar voru mjög safaríkar, þannig að mér fannst ekki ástæða til að setja neinn auka vökva í uppskriftina, en líklega þyrfti að bæta í smá vatni eða jafnvel eplasafa ef um er að ræða ekki eins safaríka ávexti.  

Athugið að hér á blogginu má finna uppskrift af laxi þar sem þetta mauk er notað sem krydd.

No comments:

Post a Comment